Tuesday, December 28, 2010

Síðasta jólagjöfin :)

Jæja, nú kemur mynd af síðustu jólagjöfinni sem ég prjónaði. Ég tók þátt í svokölluðu leyniprjóni á barnalandi fyrr á þessu ári, en það gekk út á það að það var ein þar sem setti inn einn hluta úr uppskrift á dag. Svo prjónaði ég án þess að vita hvað ég væri að búa til. Fyrir rest var ég með þessa sætu tehettu í höndunum. Ég ég ákvað strax að gefa Fjólu mágkonu hana í jólagjöf, þannig að ég keypti teketil, 4 bolla og skál undir tepokann.

Tehettan er prjónuð úr superwash ullargarni, þannig að hún heldur te-inu vel heitu.


Undir tehettunni er svo lítill vasi þar sem hægt er að geyma einn tepoka :)



Uppskriftina af tehettunni er reyndar að finna hérna á síðunni minni undir "prjónauppskriftir"

Monday, December 27, 2010

Önnur jólagjöf

Ég gerði líka þrjú svona eyrnabönd í jólagjafir í sitthvorum litnum. Blómin eru fest með tölu svo að þeim er hægt að breyta á nokkra vegu. Svo prjónaði ég líka lítið band með tveimur hnappagötum sem hægt er að setja utanum eyrnabandið til að láta það rykkjast. Ég veit ekki hvort það sjáist nógu vel þegar myndin er svona lítil, en hægt er að ýta á myndina og gera hana stærri, þá sést það betur.


Þessi mynd er semsagt sett saman með öllum útgáfum af einu og sama bandinu.



Ég gerði þrjá liti af bandinu. Svart og grátt.

Brúnt og mosagrænt


Grátt og bleikt.

Uppskriftin er bara í hausnum á mér, og garnið sem ég notaði var superwash ullargarn.

Jólagjöf

Ég prjónaði nokkrar jólagjafir fyrir þessi jól og ætla að skella inn myndum af þeim á næstu dögum.

Fyrst koma vettlingar sem ég prjónaði handa kærasta systur minnar. En mig langaði að gera eitthvað aðeins öðruvísi og ákvað því að hafa þá ósamstæða.

Ég notaði ekki neina uppskrift og hreinlega man ekki hvað ég fitjaði upp margar lykkjur. En ég notaði léttlopa í þá, og munstrið gerði ég líka bara jafnóðum og ég prjónaði :)

Ég skelli svo inn fleiri myndum af jólagjöfum á næstu dögum.

Sunday, December 19, 2010

Prjónað fyrir vökudeild.

Ég var að klára að prjóna tvær húfur fyrir þetta frábæra framtak hjá Hafdísi Pricillu Magnúsdóttur, en hún era ð safna prjónuðum fyrirburahúfum fyrir vökudeild barnaspítala hringsins. Hún eignaðist sjálf fyrirbura á síðasta ári, held ég, og hana langar að gera góðverk fyrir vökudeildina. Þegar þetta er skrifað er hún búin að safna yfir 400 húfum sem hún ætlar að afhenda á aðfangadag.

Mér finnst þetta svo æðislegt framtak og ég vildi endilega vera með. En þar sem ég hef nú ekki mikinn lausann tíma, þá náði ég bara að prjóna þessar tvær húfur. En þær eiga vonandi eftir að koma að einhverju gagni.




Stærri húfan.

Minni húfan.


Báðar húfurnar.


Uppskriftin sem ég notaði er hér til hliðar undir "prjónauppskriftir". Þar eru tvær uppskriftir, en ég studdist við uppskrift sem heitir fyryrbura húfa stærð 32-36 vikur. Ég hafði reyndar stroff neðst á þeim í staðin fyrir nokkrar umferðir af garðaprjón. Í stærri húfuna notaði ég prjóna númer 3 og í þá minni notaði ég prjóna númer 2. Svo notaði ég bómullar garn sem ég átti hérna heima :)


Sunday, November 21, 2010

Skín í rauðar skotthúfur ;)

Strákunum mínum finnst alltaf æðislegt sport að fá að vera með jólasveina húfur í desember. Í fyrra fengu þeir að vera með einhverjar jólasveinahúfur sem ég keypti einhversstaðar hand aþeim. En gallinn var sá að þær voru bara úr einhverju gerfiefni sem er bara alls ekki nógu hlýtt fyrir þá.
Þannig að ég brá á það ráð að prjóna handa þeim jólaseveina húfur !!

Ég vildi nota eitthvað hlýtt og gott garn, en það mátti heldur ekki stinga. Þannig að ég notaði smart garn í þær, sem er superwash ullargarn og stingur ekki.

Hérna er svo útkoman :)

Uppskriftina fékk ég í bókinni prjónaperlur sem kom út í fyrra. En þar er húfan reyndar röndótt og ekki svona jólaleg ;)


Þeir voru heldur betur ánægðir með húfurnar sínar bræðurnir :)


Saturday, October 30, 2010

Ungbarnateppi

Jæja, nú er ég loksins búin að klára Bring it on baby blanket ungbarnateppið.



Ég þurfti að hafa það í hlutlausum lit en vildi samt hafa það svoldið öðruvísi og endaði með þessa þrjá liti. Ég var bara nokkuð sátt :)


En ég veit að það er ekki öllum sem finnst þessir litir "passa" fyrir ungbarn ;) Hvað finnst ykkur ???

Hér er svo nærmynd af munstrinu.

Uppskriftin er hér til hliðar á ensku, en svo var ég líka búin að setja inn á bloggið íslenska þýðingu á uppskriftinni. En það var ein almennileg á handavinnuspjallinu á barnalandi sem þýddi hana fyrir mig :)

Íslensku uppskriftina má finna hérna neðar á blogginu.


Thursday, October 28, 2010

Skrímslabuxurnar í Norge :)

Jæja, nú er litli frændi í noregi búinn að fá skrímlsabuxurnar sem ég prjónaði á hann :) Ég vona bara að hann geti notað þær í vetur í kuldanum :)

Ég ákvað að skella inn mynd af honum í buxunum :)

Eins og ég hef sagt svo oft áður, þá er uppskriftin hérna til hægri undir "prjónauppskriftir" og neðar á síðunni var ég búin að skrifa hvernig ég breytti þeim :)

Saturday, October 16, 2010

Lambhúshetta og skrímslarass :)

Jæja, nú er ég loksins búin að klára lambhúshettuna á yngri soninn líka :) Hann var búinn að bíða eftir að fá sína lambhúshettu og var sko heldur betur glaður að fá eins húfu og stóri bróðir :)

Ég set inn eina mynd af honum með nýju lambhúshettuna sína :)


Og hér kemur svo mynd af þeim báðum með lambhúshetturnar :)


Svo er ég búin að klára þriðju skrímslabuxurnar. En það var lítill frændi í noregi sem fékk þær sendar í síðbúna afmælisgjöf :)

Hérna er mynd af þeim að aftan.....


Og hér er svo mynd af þeim að framan :)




Uppskriftin af lambhúshettunni er hér til hliðar undir "prjónauppskriftir" Og uppskriftin af skrímslabuxunum er þar líka, ég reyndar breytti aðeins uppskriftinni af buxunum, en það er færsla hér neðar í blogginu þar sem ég útskýri hvernig ég breytti þeim :)

Wednesday, September 29, 2010

Vettlingar

Ég var að klára þessa litskrúðugu vetlinga á yngri soninn :) Þeir eru prjonaðir úr garni sem heitir Labbetuss raggegarn sem ég fékk í Euoropris. Það er blanda af ull, nylon og acryl. (60%ull)
Ég fór ekki eftir neinni uppskrift, en notaði prjóna númer 3,5.


Svona prjónaði ég þá :

Fitjið upp 40 lykkjur og skiptið þeim á 4 prjóna (10 lykkjur á hvern) prjónið stroff (slétt og brugðið) í 22 umferðir. Svo slétt í 8 umferðir. Á hægri vettling prjónarðu svo 2 lykjur af fyrsta prjóni og prjónið svo 4 lykkjur í öðrum lit. Setjið þær svo strax aftur á vinstri prjóninn og prjónið þær aftur með sama garni og vettlingarnir eru prjónaðir úr. Prjónið svo venjulega út umferðina.
Á vinstri vettling prjónarðu þar til 6 lykkjur eru eftir á fjórða prjóni. Prjónar þá 4 lykkjur í öðrum lit. Setjið þær svo strax aftur á vinstri prjóninn og prjónið þær aftur með sama garni og vettlingarnir eru prjónaðir úr.

Svo prjónið þið 12 umferðir slétt og takið svo úr þanig:

Prjónn 1. takið eina óprjónaða lykkju yfir á hægri prjón, prjónið eina lykkju og steypið svo óprjónuðu lykkjunni yfir þá prjónuðu. prjónið út prjóninn.
Prjónn 2. prjónið þar til tvær lykkjur eru eftir á prjóninum og prjónið þær saman.
Prjónn 3. takið eina óprjónaða lykkju yfir á hægri prjón, prjónið eina lykkju og steypið svo óprjónuðu lykkjunni yfir þá prjónuðu. prjónið út prjóninn.
Prjónn 4. prjónið þar til tvær lykkjur eru eftir á prjóninum og prjónið þær saman.

Svo prjóna ég tvær sléttar umferðir og tek úr aftur alveg eins og ég gerði áður.

Svo prjóna ég eina umferð og tek svo úr í hverri umferð. En áður en ég fer að taka úr í hverri umferð þá skipti ég yfir í bláann lit. Þegar það eru svo 8 lykkjur eftir slikki ég garnið dreg spottann í gegnum lykkjurnar sem eftir eru á prjónunum.

Þegar þumallinn er gerður (með bláum lit) þá er aukabandið tekið úr lykkjunum og þær settar á tvo prjóna. (4 lykkjur á hvorn prjón) svo takið þið líka upp tvær lykkjur við sinnhvorn endann svo að ekki myndist gat við þumalinn. Samtals ertu þá með 6 lykkjur á hvorum prjóni eða 12 lykkjur allt í allt. Prjónið svo 10 umferðir slétt. Svo prjónið þið tvær lykkjur saman í byrjun og enda hvors prjóns í næstu umferð og svo tvær og tvær saman í síðustu umferðinni. Klippið svo garnið frá dragið garnið svo í gegnum lykkjurnar sem eftir eru á prjónunum.

Gangið vel frá ölum endum.

Góða skemmtun :)

Lambhúshetta

Ég var að enda viðað prjóna þessa lambhúshettu fyrir eldri son minn. Svo á ég eftir að prjóna svona á þann yngri líka ;) Uppskriftin er hér til hliðar undir "fríar uppskriftir" og heitir Lambhúshetta frá Tinu. Hún er þykk og góð, prjónuð með klukkuprjón.

Ég notaði smart garn og prjóna númer 2 og 3,5.

Það er líka mjög flott að hafa hana í fleiri litum :)


Hérna kemur svo mynd að syninum með lambhúshettuna.

Monday, July 26, 2010

17 kílómetra langur trefill !!!!

Ég rakst á frétt á www.dv.is um þessa konu sem er að prjóna trefil sem á að verða 17 kílómetra langur !!!! Mér finnst þetta ótrúlega sniðugt og gaman að fylgjast með henni í gegnum heimasíðuna hennar sem er www.frida.is. Hún heitir Fríða Björk, en ég vil samt bara að það sé á hreinu að það er EKKI ég sem er að prjóna þennan flotta trefil. Ég held að ég mundi ekki hafa þolinmæði í slíkt ;) En ef þið viljið, þá er öllum velkomið að taka þátt í þessu með henni og prjóna trefil sem hún bætir svo við sinn.... Kannski ég geri það einhverntíman.....


Hér er svo mynd af henni með trefilinn flotta. En myndina fékk ég lánaða á síðunni hennar.

Endilega kíkið á www.frida.is og fylgist með þessu flotta verkefni hjá henni :)

Monday, June 28, 2010

Spiderman vettlingar

Síðasta uppskriftin í dag :) Ég fann þessa uppskrift af Spiderman vettlingum. Best að ég skelli henni inn líka :)

Góða skemmtun :)


Jarðaberjasokkar

Ég fann íslenska uppskrift af þessum ÆÐISLEGU jarðaberja sokkum. Það er bara verst að það er engin lítil dama í kring um mig sem ég gæti prjónað þá fyrir !!!


Ég set uppskriftina hér til hliðar undir "prjónauppskriftir"

Ungbarna peysa

Ég var að finna uppskrift af svo sætri ungbarnapeysu. Hún heitir Baby Boy 5-Hour Sweater. Ég ákvað að skella uppskriftinni hingað inn. Hún er eins og allar hiar fríu uppskriftirnar undir "prjónauppskriftir"


Góða skemmtun og gangi ykkur vel :)

Friday, June 18, 2010

Prjónuð póstkort :)

Ég datt niður á þessa sniðugu hugmynd á netinu. Mér fannst þetta ferlega töff. Sniðugt að nota tímann ef veðrið er leiðinlegt í fríinu ;)

Ég setti inn ókeypis uppskrift sem ég fann líka á netinu. Hún er hér til hægri, undir "prjónauppskriftir"

Góða skemmtun !!!!!

Monday, June 14, 2010

Bylgjuteppi

Ég var að muna eftir uppskrift sem ég fann á netinu síðasta vetur af svona ungbarna-bylgjuteppi. Ég ákvað að setja uppskriftina hingað inn. Hún er hér til hliðar undir "uppskriftir"

Svo var ein á barnalandi sem íslenskaði hana fyrir mig, íslenska þýðingin er svona :

Byrjar á að fitja upp 110 lykkjur mjög laust.
Prjónar 4 umferðir slétt (2 garðar)
Byrjar munstrið:

Umferð 1: Prjóna 2 saman, prjóna 2 saman, slá bandinu upp á prjóninn, prjóna eina, slá bandinu upp á prjóninn, prjóna eina, slá bandinu upp á prjóninn, prjóna eina, slá bandinu upp á prjóninn, prjóna 2 saman, prjóna 2 saman. Endurtekið út umferðina.

Umferðir 2-4: Prjóna slétt.

Endurtekur umferðir 1-4 þangað til þér finnst teppið orðið nógu langt.
Endar á 4 umferðum slétt (2 görðum) og fellir mjög laust af.

Gangi ykkur vel :)


Thursday, June 10, 2010

3 mánuðir.......

Eftir 2 daga eru liðnir 3 mánuðir síðan ég stofnaði þessa bloggsíðu. Mér datt í hug að hún gæti kannski verið einhverjum til gagns og gamans. Ég vona að hún hafi verið það. En mig langar til að þakka ykkur sem hafið verið að kíkja hingað inn fyrir innlitið og einnig fyrir kommentin :) Það er svooooo gaman að sjá þegar þið eruð að skoða síðuna mína og skiljið eftir smá komment eða kveðju hérna :)

En svona til gamans, þá langar mig til að segja ykkur það að á þessum 3 mánuðum er ég búin að fá hvorki meira né minna en 3600 heimsóknir á síðuna !!! Það er meira en 1000 heimsóknir á mánuði !!!

Takk, Takk fyrir þið sem kíkið á mig. É gætla að reyna að halda áfram að vera dugleg að uppfæra hérna. Setja inn fríar uppskriftir sem ég finn, myndir af því sem ég er að prjóna, sniðuga linka og kennsluvideo.

ef það er eitthvað sem þið sjáið að hægt er að bæta inn á síðuna mína, endilega látið mig vita :) Það er alltaf gaman að fá hugmyndir :)

Prjónakveðjur, Fríða prjónakella

Friday, June 4, 2010

Regnbogavettlingar - heimalitaði garn :)

Jæja, nú er ég búin að prjona vettlingana sem eldri sonur minn pantaði úr garninu sem ég litaði :)



Hálfnað verk þá hafið er ;) Þarna var ég hálfnuð með annan vettlinginn, en búin með hinn, en átti eftir að gera þumalinn :)



Nærmynd :)


Tilbúnir :)
Sonurinn er hæstánægður og kallar þá regnbogavettlingana sína :) Ég var bara nokkuð sátt við útkomuna :) Svo á ég enn eftir garn, bæði þennan lit og græna litinn, ég er að spá í að prjóna kannski vettlinga á litlakút :)

Tuesday, June 1, 2010

Skrímslabuxur Nr 2 tilbúnar :)

Jæja, þá er ég búin með skrímslabuxurnar fyrir yngri soninn :) Hann var sko heldur betur ánægður með buxurnar, það er sko EKKERT skemmtilegra en að eiga eins buxur og stori bróðir ;)

Skelli inn nokkrum myndum af honum í buxunum :) Uppskriftin er svo hérna til hægri, undir "uppskriftir" Ég reyndar breytti þeim aðeins en ég var búin að skrifa hérna inn hvernig ég breytti þeim, en það er aðeins neðar, þar sem ég setti inn myndir af skrímslabuxunum fyrir frumburðinn :)

Hérna eru báðar buxurnar :) Bláu eru á eldri strákinn og brúnu á þann yngri :)

Hann þurfti að sjálfsögðu að sýna mér "skrímsla-rassinn" :)


Þær passa mjög vel á hann, þó svo að hann sé enn með bleyju og ég sleppti útaukningunni á rassinum :)


Litli kall var svoooo ánægður neð nýju buxurnar sínar :)

Wednesday, May 26, 2010

Heimalitað garn

Ég var að dunda mér við að lita garn heima og fékk þessa líku flottu liti :) Eldri sonurinn er búinn að velja sér hnykil sem hann vill að ég prjóni vettlinga á hann úr !!!



En þetta er mjög einfalt. Ég setti vatn og edik í pott. C.a. einn dl af ediki á móti 2 af vatni, lét suðuna koma upp. Setti þá garnið út í vatnið og létt bulla nokkrum sinnum, eða þar til garnið var orðið blautt í gegn. Svo var ég búin að blanda Wilton matarlitum í vatn og hellti yfir garnið. Einn lit á sitthvorn endann á dokkunni og einn lit í miðjuna. Svo tók ég garnið upp úr áður en litirnir blönduðust saman. (Þá hefði garnið bara orðið brúnt) Lét garnið svo þorna og skolaði það upp úr köldu vatni. Lét það svo þorna aftur og þvoði það svo upp úr sápu.

Einfalt og skemmtilegt :) Ég hlakka svo til að byrja á vettlingunum. (Þarf bara að klára einar skrímslabuxur fyrst)

Wednesday, May 19, 2010

Ungbarna-inniskór

Ég var að finna uppskrift á netinu af þessum æðislega sætu ungbarna-inniskóm. Uppskriftina set ég hér til hliðar undir "prjónauppskriftir" en hún er í stærð 0-3 mánaða. En það er mjög einfalt að stækka hana með því að prjóna fleiri umferðir á sólanum og taka upp fleiri lykkjur við endann af sólunum.


Góða skemmtun að prjóna :)

Wednesday, May 12, 2010

Hálskragi

Var að setja inn uppskrift af svona hálskraga. Hún er hér til hægri, undir "prjónauppskriftir"




Monday, May 3, 2010

Ungbarnaskór

Ég var að klára að prjóna þessa sætu ungbarnaskó. Þeir eru mjög auðveldir að gera og ég var ekki nema c.a 2 tíma með hvort parið og svo kannski 1 tíma að ganga frá.

Sætir brúnir og hvítir með tré tölum.

og svo bláir og hvítir með bláum tölum :)

Uppskriftin er hér til hægri undir "prjónauppskriftir"

Monday, April 26, 2010

Skrímsla-rass

Ég var að enda við að klára að prjóna þessar sætu skrímsla-rass buxur á eldri strákinn minn sem er tæplega 4 ára.

Ég setti link á uppskriftina hérna til hliðar undir "prjónauppskriftir"

Ég breytti reyndar uppskriftinni aðeins. En ég prónaði 10 umferðir í stroff (2 sléttar og 2 brugðnar) svo gerði ég eina gata umferð og svo aftur 10 umferðir í stroff. Svo sleppti ég útaukningunni í rassinn ( því að ég hef heyrt að buxurnar poki á rassinum ef barnið sem á að nota buxurnar er hætt með bleyju) Semsagt prjónaði bara slétt þar til stykkið mældist c.a. 15 cm með stroffi. (Ágætt að mæla það samt við barnið sem á að fá buxurnar). Svo setti ég bara rauðann lit þar sem ég vildi hafa munninn. Og þá bætti ég inn lykkjum fyrir skrefbót. Svo mældi ég bara hvað ég þurfti að hafa skálmarnar langar.

Strákurinn var sko heldur betur ánægður með skrímsla-buxurnar sínar. En hann var búinn að segja við mig að hann vildi hafa tungu á þeim og tennur :)

Ný uppskrift

Var að setja inn uppskrift af ferlega sætum ungbarnahosum.
Uppskriftin er á dönsku, en hún er líka mjög einföld. Uppskriftin er hér til hliðar undir "prjónauppskriftir"

Góða skemmtun :)

Thursday, March 25, 2010

Barnahúfa

Ég prjónaði þessa sætu húfu um daginn. Húfuna er auðvelt að prjóna og sniðið á henni er alveg frábært og húfan liggur vel að andliti barnsins en fer samt ekki ofan í augu.

Uppskriftina fékk ég í bókinni Prjónaperlur. Eins og komið hefur fram hér a síðunni, þá er ég nýbúin að taka upp prjónana aftur eftir að hafa varla snert prjóna síðan í grunnskóla. En í þessari frábæru bók eru margar flottar og auðveldar uppskriftir, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Ég mæli því eindregið með bókinni fyrir alla prjónara :)


Hér er svo yngri sonur minn með húfuna :)

Ný prjónauppskrift komin inn !!!

Var að setja inn prjónauppskrift af þessum æðislegu ungbarnaskóm. Uppskriftin er hér til hægri undir "prjónauppskriftir".

Vonandi getur einhver nýtt sér þessa uppskrift :)