Tuesday, December 28, 2010

Síðasta jólagjöfin :)

Jæja, nú kemur mynd af síðustu jólagjöfinni sem ég prjónaði. Ég tók þátt í svokölluðu leyniprjóni á barnalandi fyrr á þessu ári, en það gekk út á það að það var ein þar sem setti inn einn hluta úr uppskrift á dag. Svo prjónaði ég án þess að vita hvað ég væri að búa til. Fyrir rest var ég með þessa sætu tehettu í höndunum. Ég ég ákvað strax að gefa Fjólu mágkonu hana í jólagjöf, þannig að ég keypti teketil, 4 bolla og skál undir tepokann.

Tehettan er prjónuð úr superwash ullargarni, þannig að hún heldur te-inu vel heitu.


Undir tehettunni er svo lítill vasi þar sem hægt er að geyma einn tepoka :)



Uppskriftina af tehettunni er reyndar að finna hérna á síðunni minni undir "prjónauppskriftir"

Monday, December 27, 2010

Önnur jólagjöf

Ég gerði líka þrjú svona eyrnabönd í jólagjafir í sitthvorum litnum. Blómin eru fest með tölu svo að þeim er hægt að breyta á nokkra vegu. Svo prjónaði ég líka lítið band með tveimur hnappagötum sem hægt er að setja utanum eyrnabandið til að láta það rykkjast. Ég veit ekki hvort það sjáist nógu vel þegar myndin er svona lítil, en hægt er að ýta á myndina og gera hana stærri, þá sést það betur.


Þessi mynd er semsagt sett saman með öllum útgáfum af einu og sama bandinu.



Ég gerði þrjá liti af bandinu. Svart og grátt.

Brúnt og mosagrænt


Grátt og bleikt.

Uppskriftin er bara í hausnum á mér, og garnið sem ég notaði var superwash ullargarn.

Jólagjöf

Ég prjónaði nokkrar jólagjafir fyrir þessi jól og ætla að skella inn myndum af þeim á næstu dögum.

Fyrst koma vettlingar sem ég prjónaði handa kærasta systur minnar. En mig langaði að gera eitthvað aðeins öðruvísi og ákvað því að hafa þá ósamstæða.

Ég notaði ekki neina uppskrift og hreinlega man ekki hvað ég fitjaði upp margar lykkjur. En ég notaði léttlopa í þá, og munstrið gerði ég líka bara jafnóðum og ég prjónaði :)

Ég skelli svo inn fleiri myndum af jólagjöfum á næstu dögum.

Sunday, December 19, 2010

Prjónað fyrir vökudeild.

Ég var að klára að prjóna tvær húfur fyrir þetta frábæra framtak hjá Hafdísi Pricillu Magnúsdóttur, en hún era ð safna prjónuðum fyrirburahúfum fyrir vökudeild barnaspítala hringsins. Hún eignaðist sjálf fyrirbura á síðasta ári, held ég, og hana langar að gera góðverk fyrir vökudeildina. Þegar þetta er skrifað er hún búin að safna yfir 400 húfum sem hún ætlar að afhenda á aðfangadag.

Mér finnst þetta svo æðislegt framtak og ég vildi endilega vera með. En þar sem ég hef nú ekki mikinn lausann tíma, þá náði ég bara að prjóna þessar tvær húfur. En þær eiga vonandi eftir að koma að einhverju gagni.




Stærri húfan.

Minni húfan.


Báðar húfurnar.


Uppskriftin sem ég notaði er hér til hliðar undir "prjónauppskriftir". Þar eru tvær uppskriftir, en ég studdist við uppskrift sem heitir fyryrbura húfa stærð 32-36 vikur. Ég hafði reyndar stroff neðst á þeim í staðin fyrir nokkrar umferðir af garðaprjón. Í stærri húfuna notaði ég prjóna númer 3 og í þá minni notaði ég prjóna númer 2. Svo notaði ég bómullar garn sem ég átti hérna heima :)